Einu sinni átti ég bók með þessum titli, mér fannst hún rosalega skemmtileg af því að það fylgdi mús með bókinni sem maður setti svo í gegnum göt á hverri blaðsíðu fyrir sig. Ég gat skemmt mér konunglega tímunum saman eða því sem næst. Hitt er svo annað mál að nú er mús í húsinu og ég og Þorgeir skemmtum okkur ekki konunglega við að ná henni. Það er búið að setja upp tvær gildrur með osti og líka súkkulaði sem þeim á víst að finnast rosalega gott. Ég held að músin sé bara of klár því ég horfði á hana hlaupa framhjá gildrunni í gær. Næsta skref er því að fá kisuna frá sr. Jóhönnu og vonast til þess að hún sé klárari en músin.
Ég held að músin hafi komist inn um gatið á húsinu, já það var gat á húsinu! Nú er að vísu búið að loka því svo vonandi koma ekki fleiri inn og þar sem það er vetur er ólíklegt að músin sé á leiðinni að fara að gjóta. Gatið á húsinu var mér að kenna, eiginlega samt mér og Þorgeiri. Bíllinn sem við vorum á bakkaði á húsið, nei við vorum ekki í bílnum. Kannski ég ætti bara að kenna bílnum um þetta. En allavega þá skemmdist bæði bíllinn og húsið en ekki ég og Þorgeir (enda máttum við nú ekki við því) en það er allt saman tryggt svo VÍS er í málinu, nú bíð ég bara eftir smiðnum og símtali frá bílaverkstæðinu. En húsið er íbúðarhæft og bílinn ökufær svona í bili allavega, svona bráðarbyrgða.
Annars blótaði ég Þorra um helgina, var að því þegar músin skreið inn held ég. Mér fannst það stórskemmtilegt. Fullt af furðulegum atriðum, súrum mat og nefndarvísum. Ég fattaði nú ekki alla brandarana en einhverjir voru útskýrðir fyrir mér. Hitt er svo annað mál að margar nefndarvísurnar eru fyndnar hvort sem maður þekkir fólkið eða ekki. Ég get deilt einni með ykkur sem er um hjón þar sem konan er á danska kúrnum, ég man samt því miður bara textann við viðlagið!
Gott er að borða gulrótina, græna kálið, steinseljuna, rabbabara, rúlluhey og rófustöppu og arfa. Þá fá allir mjóan maga, mjög svo verða alla daga, eins og kýrnar útí haga upplagðir til starfa.
Kál er fyrir kanínur og kýrnar borða heyrúllur en sjálfur heiti ég Sigmundur og sjá vil kjöt á diski. Tölti ég með tóman kviðinn tel þó betra'ð halda friðinn en sjálfur vil ég sauðasviðin og svolítið af fiski!
Athugasemdir
hæhæ rakst inná síðuna þína á blogghoppi og vildi bara kvitta fyrir mig fallegar myndir úr brúðkaupinu þú varst ekkert smá falleg :D
kv. Sæunn (einusinni kssingur)
Sæunn Valdís, 16.2.2007 kl. 17:29
Ohhh.. man eftir þessari bók. Fáránlega skemmtileg. En kannski ekki eins skemmtilegt að standa í þessu "real-life" .. have fun!
Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, 17.2.2007 kl. 15:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.