...eða bara bootcamp páskar
Gleðilega páska fólk. Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn.
Þetta hafa verið góðir páskar að mestu leiti, ligg hér upp í rúmi með sofandi Sófus við hliðina á mér, meira hvað þessir Sófusar geta sofið... þó hann reyndar vaki stundum á næturnar og finnst þá fátt skemmtilegra en að klifra yfir mig og reyna að finna holu til að kúra í, já eða að bíða eftir að tærnar mínar gægist undan sænginni svo hann geti bitið í þær!
Annars áttu þetta að vera alveg svakalegir bootcamp páskar... útiæfing á föstudag, laugardag og mánudag var planið. Ég fór á æfingu á föstudaginn og fékk þrjár blöðrur á hvorn fót! Ég hugsaði með mér að ég yrði að kaupa mér nýja skó eftir páska, plástraði mig vel og mætti á æfingu á laugardag. Var að vísu alveg að gefast upp hálfa æfinguna en aðallega vegna orkuleysis en ekki vegna fótanna. Fann það samt strax eftir 20 mín að það var farið að blæða úr mér. En maður lætur ekki svoleiðis smámuni á sig fá ég hélt áfram og kláraði æfinguna eftir skammir frá Gígju þegar ég spurði hvort hópurinn minn mætti fara á undan mér af því að ég væri aumingi. Það var ekki í boði, hvorki að hleypa hópnum á undan né að vera aumingi þannig að ég hélt áfram. Eftir útiæfinguna var teygjuæfing og þegar ég fór úr skónum uppgötvaði ég að það hafði blætt aðeins meira en ég hélt í upphafi. Sem að varð til þess að ég fór í svitagallanum mínum í intersport og þegar ég loksins hafði upp á einhverjum sem átti að geta afgreitt mig bað ég um plástur og sokka svo ég gæti mátað hlaupaskó. Drengurinn varð nú eitthvað kjánalegur yfir þessu öllu saman, brá svolítið þegar hann sá sokkinn minn en ég sagði honum að þetta væri ekkert mál, en ég þyrfti plástur því ég yrði að fá skó strax svo ég kæmist á æfingu á mánudegi. Aumingjans drengurinn hélt pottþétt að ég væri klikkuð en gaf mér plástur og lánaði mér sokka og reyndi að selja mér eróbikk skó. Ég hélt nú ekki og valdi mína hlaupaskó sjálf enda gafst hann upp á að reyna að aðstoða mig og labbaði í burtu... góð þjónusta
Svo ákvað ég í dag að sleppa útiæfingu (sem var víst inni) þó mér hafi ekki fundist það gaman. En þar sem ég var komin með sýkingu í eina tána ákvað ég að reyna að jafna mig áður en ég færi að hlaupa meira þrátt fyrir að eiga nýja skó sem ég get ekki beðið eftir að nota!
En núna var Þorgeir að koma heim, hann var góður og fór í apótek að kaupa hælsærisplástra handa mér svo ég gæti kannski byrjað að ganga í venjulegum skóm aftur!
en hvað er annars málið með mig og páskaegg, mér finnst algjör skylda að fá páskaegg á páskum en ég hef ómögulega lyst á þeim á páskadegi... mitt er ennþá óopnað en hver veit nema ég laumist í það á eftir. Mér finnst ég eiga það skilið þó að ég hafi ekki meikað æfingu í morgun... ég hef samt ekki lyst á því strax, þetta er farið að verða vandamál!
Athugasemdir
Hehe fyndin Hlín. Vinur minn fékk lungnabólgu af Boot Camp í fyrra og var 3 mánuði og 3 kíló að jafna sig. Og þar sem ég veit ekki hvort þú ert búin að opna páskaeggið þitt þá ætla ég að gefa þér málshátt fyrir heilsuæðið.
Kapp er best með forsjá.
Venlig hilsen
Jóhann Þorsteinsson, 25.3.2008 kl. 23:55
Þakka þér fyrir góðan málshátt Jói, ég opnaði páskaeggið mitt víst í gær en borðaði ekki mikið af því. Nú verður það geymt fram á laugardag því nú verður ekkert gefið eftir! Ég á sem sagt 6 vikur eftir í BC og gerði samning við þjálfarann um að missa 4% af fitu á þessum sex vikum. Ef það tekst ekki þarf ég að gera 100 súperfroska eftir síðustu æfinguna... sjáum hvað setur
Lutheran Dude, 26.3.2008 kl. 19:23
Heyrðu mér finnst að þú eigir að fara að blogga!! Páskarnir eru löngu búnir! ég heimta nýtt blogg!!
Dagný Guðmundsdóttir, 1.4.2008 kl. 13:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.