Það er alltaf verið að skamma mig fyrir bloggleysi. Ég hef bara eitthvað svo lítið að segja þessa dagana og nenni lítið að hanga í tölvunni. Ég kveikti á tölvunni til að undirbúa uppeldisnámskeiðið sem ég er víst að kenna en að sjálfsögðu er ég bara búin að vera á facebook og leika mér í photoshop sem ég er nýkomin með (takk Gummi). Annars er ég mikið búin að vera að reyna að prjóna. Ég kláraði vestið mitt í gær en uppgötvaði svo að þetta var meira svona dúkkukjóll, það hefði ekki einu sinni barnshaus komist í gegnum hálsmálið. Ég hins vegar rakti svo hálsmálið upp og prjónaði það lausar, hausinn minn kemst í gegn en ég held að þetta sé allt saman rosalega lítið eitthvað, ég prjóna svo fast. En núna er þetta allavega orðið vesti og ef ég kemst ekki í það þá bara gef ég litlu frænku minni það, hún verður kannski glöð. Það nýjasta hjá mér er einfalt en skemmtilegt dót sem Heiðdís gaf mér uppskrift af í dag, en ég ætla ekki að segja hvað það er það sem þetta eru planaðar jólagjafir hehe!
En jú, eitt sem ætti kannski að blogga um. Stefán Bogi dró Heiðdísi, mig og Dorie í Sænautasel í gær í myrkragöngu og haustmatsveislu. Það var ekki skemmtilegt að keyra, sérstaklega ekki þegar ég sá bara eina stiku í einu og stundum enga! Stefán Bogi tók svo við akstrinum og kom okkur á réttan stað, þrátt fyrir að Heiðdís hafi eiginlega bara viljað snúa við. Það varð að vísu lítið úr göngunni enda var það kalt og snjóugt að skeggið á Stefáni Boga fraus. Ég bað hann um að láta það gerast aftur þegar ég væri með myndavélina mína en hann stóð ekki við það. Við neyddumst svo til að borða haustmatinn þar sem við vorum föst þar til hefillinn var mættur til að moka fólk út. Í matinn var slátur, hangikjöt, rúgbrauð, sviðakjammar og síðast en ekki síst kindafætur! Ég borðaði smá slátur, pínu hangikjöt, og smakkaði fót. Kindafætur eru ekki góðir ef þið skilduð vera að hugsa um að smakka þá, þeir eru bara skinn, fita og bein - ég er ekki hrifin af neinu af þessu þrennu, þannig að ég kláraði fótinn minn ekki. Það var samt fullt af köllum þarna sem borðuðu þetta allt saman með bestu lyst og lyktin var eftir því! En ég fékk fínan ávaxtagraut í eftirrétt og við komumst heim heil og höldnu þar sem ég kíkti í heimsókn til Stefáns og Heiðdísar Boga (hehe) og horfði á mean girls, gaman að því!
Jæja þá er ég búin að segja frá öllu því merkilega sem ég gerði um helgina held ég, nei gleymdi tvennu, ég mætti í skokkhóp í gær og messu í dag. Hvorugt merkilegt en ég er að hugsa um að halda áfram að mæta í skokkhóp á laugardagöum fyrst að það er ein þarna sem er til í að hlaupa undir 10 km með mér, gaman að því!
yfir og út!
Athugasemdir
Gaman í Sænautaseli...
Stefán Bogi Sveinsson, 18.11.2008 kl. 12:08
fyrst var allt í lagi....svo var leiðinlegt....svo var asnalegur matur (kindafætur)....svo var soldið gaman og svo fórum við heim en mér finnst þetta skemmtileg viðbót í minningabankann ...
Heiðdís Ragnarsdóttir, 18.11.2008 kl. 12:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.