langt síðan síðast

Ég er á þeim stað í lífinu (eða meira vinnunni) að ég veit ekkert hvað á af mér að gera, ekki af því að það er svo lítið að gera heldur er ég með fullt af misstórum verkefnum sem mér tekst engan veginn að forgangsraða! Mér hættir til að setja léttustu verkefnin fyrst, ég aftur á móti ætti að geta séð hvað eru nauðsynlegustu verkefnin og setja þau fyrst.

En jæja það að blogga getur víst ekki talist nauðsynlegasta verkefnið svo ég er farin


Fréttir af snjómálum...

... eða kannski voðalega litlar fréttir. Ég fór að heiman um kl.18 í gær eftir að hafa horft á skemmtilegan handboltaleik, mér finnst alltaf gaman þegar Ísland vinnur! En já ég fór sem sagt að heiman og þá var ekki búið að ryðja fyrir mig, maðurinn sem ætlaði að reyna að koma á fimmtudaginn en í síðasta lagi á föstudaginn. Ég vona að hann sé búinn að þessu núna... einhvern veginn verð ég að ná bílnum úr skaflinum og í vinnuna. Það er víst félagsþjónustan sem á bílinn og fólkið þar væri eflaust til í að fara að fá hann aftur í stað þess að geyma hann í skafli.

En ég veit sem sagt ekki hvernig staðan er við Kirkjumiðstöðina þar sem að ég fór í bíó á Reyðarfirði í gær á myndina Köld slóð. Ég verð að segja að mér fannst hún bara mjög þrátt fyrir full Hollywood legan endi eitthvað. Í stað þess að láta skutla mér heim eftir þessa stórskemmtilegu bíóferð ákvað ég að þiggja gistingu sem mér var boðin á Norðfirði. Núna sitjum við Friðrik saman í stofunni, hann að horfa á fótbolta (ég held að Man United og Arsenal séu að spila) og ég í tölvunni. Við erum að bíða eftir að handboltinn byrji og svo verður mér skutlað heim held ég.

En það merkilegasta af öllu! Ég vann Frikka í skrafli HAHA ég er montinn, þá er bara næsta skref að vinna Þorgeir Cool

 PS ég tók nokkrar snjómyndir í gær, set þær inn þegar ég verð í bænum og kemst á netið í minni eigin tölvu


Matartími

Já ég ákvað að nota matartímann minn til að blogga!

það eru miklar vetrarhörkur á Austurlandi þessa stundina, enda er ég búin að taka snjóbuxurnar mínar upp úr kassa og eru þær nú hluti af daglegum útbúnaði.

Kostir snjósins:

  1. Ég sé ekki lengur bílana í bílakirkjugarðinum fyrir utan gluggann á skrifstofunni
  2. Það er bjartara yfir
  3. Snjór er skemmtilegur

Gallar snjósins:

  1. Ég sé ekki veginn við Kirkjumiðstöðina í gær
  2. Ég þurfti að moka í einn og hálfan klukkutíma
  3. Ég þurfti að vaða mannhæðarháa snjóskafla til að komast upp á veg (datt nokkrum sinnum og átti erfitt með að standa upp)
  4. Bíllinn er ennþá fastur
  5. Ég komst ekki heim til mín síðustu nótt

En já vegurinn við kirkjumiðstöðina var sem sagt ekki ruddur, ég hitti ekki á veginn og festi bílinn. Þó ég hefði hitt á veginn þá hefði bíllinn samt setið fastur einhvers staðar. Í gærkvöldi sá ég að það var ekki búið að ryðja veginn og ég var of þreytt til að vaða skaflana og þurfa svo að vaða þá aftur í morgun til að komast í strætó. Þess í stað gisti ég heima hjá Jóhönnu. Það var ágætt en engu að síður ætla ég að vaða skaflana eftir vinnu í dag til að geta hangið heima yfir helgina. Helginni verður að öllum líkindum eytt í DVD gláp en það eru sannir vinir sem halda í mér lífinu þessa dagana Halo

 Þrátt fyrir þessi stífu plön um helgina verða símtöl leyfð, en þeim verður svarað í réttri röð


vísbendingar um athyglisbrest

... en bara á lágu stigi sem betur fer.

En já því miður gerast stundum hlutir sem benda til þess að ég sé með vægan athyglisbrest. Ég var á málstofu í morgun og við nemarnir skiptumst á að lýsa rannsóknarverkefnunum okkar. Þegar ein stelpan var að tala, fattaði ég að ég vissi ekkert hvað hún var búin að segja og þetta hefur gerst sorglega oft í tímum, KSF fundum, kirkju eða bara of stórum hóp af fólki (stunum þurfa ekki að vera fleiri en 3-4 til að hópurinn sé of stór). Ég hugsa samt að þetta eigi ekki eftir að gerast í viðtölum, ég vona allavega ekki því þá er ég á rangri hillu í lífinu!

Annað sem gæti gefið vísbendingu um athyglisbrest hjá mér gerðist í dag þegar ég var að setja saman stól sem við hjónin keyptum um helgina. Við vorum svo hagsýn um helgina að það var æðislegt. Mér finnst gaman að eyða peningum og segjast vera hagsýn. Við sem sagt keyptum 6 stóla á 1000 kr. stykkið á Lagersölu IKEA og svo keyptum við föt á okkur bæði á 40-70% afslætti. Nú er ég algjör gella, búin að kaupa stígvél og fleiri pils! En já kannski er þetta enn eitt dæmið um athyglisbrest vera að segja eitthvað en gleyma því og byrja að tala um allt annað... anyways ég var að setja stólinn saman, reyna að flýta mér og hugsa um eitthvað annað í leiðinni og þetta gerðist:

jol07

jæja já

Þá er maður mættur í menninguna og er að svindla með því að blogga í vinnunni... reyndar líður mér eins og ég sé ein hérna þrátt fyrir að klukkan sé bráðum að verða hálf níu! Það voru líka flestir lengi í vinnunni í gær.

Þar sem Þorgeir er farinn er reyndar líklegt að ég verði líka ein af þeim sem verð lengi í vinnunni (þó ég mæti klukkan 8). Ég hef aldrei verið lamin af jafn mikilli þögn og í gærkvöldi, ég setti ipodinn í eyrun bara til að þagga niður í þögninni! Borgarbarn á ekki að vera eitt í 50 manna húsi lengst upp í sveit, bara staðreynd.... en þetta reddast, hlýtur að venjast.... ef ekki þá bara græði ég ipodinn við eyrað (já eða símtólið Wink)

Verð að vinna. Yfir og út með kveðju frá Eg


Ertu þá faaaaaarin ertu þá farin frá mér...

Já lesendur góðir ég held á vit örlaganna, eða eitthvað... ég er allavega á leiðinni austur eftir nokkrar mínútur eða svo! 

Gleðilegt ár, ég vona að þetta ár sem nú er gengið í garð megi veita okkur öllum mikla blessun.  


Jæja gott fólk!

Gleðilega hátíð, það má víst segja það ennþá.

Jólin eru búin að vera yndisleg, fullt af gjöfum, fullt af jólaboðum, of mikið af góðum mat, fullt af jólabókum. Ég elska að kúra mig uppi í rúmi í jólafríinu með góða bók. En satt best að segja er ég farin að sjá fyrir endann á þessum hátíðleg heitum þar sem ég mun fara austur á land á nýársdag. Satt best að segja veit ég ekki hvort kvíðinn eða spennan hafa yfirhöndina þessa stundina en það skiptist á. Stundum langar mig ekkert austur og sé fullt eftir þessari ákvörðun og stundum get ég ekki beðið að takast á við ný verkefni. Ég vona bara að þetta verði skemmtilegur tími og ekkert alltof einmannalegur, úffídúffí! Ferðataskan liggur opin á rúminu en það er ekkert í henni nema peysur og hún er næstum full. Svo er allt of mikið af bókum sem mér finnst ég verða að hafa með mér... ég held ég fríki bráðum út.

Ég hef ekki hugmynd um hvort ég verði nettengd fyrir austan nema bara í vinnunni svo ég veit ekki hvernig fer með þetta blogg, sjáum til, vonandi endar þetta allt vel.

Annars er ég að fara á síðustu vaktina mína í vinnunni minni. Það er allavega alveg sérdeilis góð tilhugsun... ekki að vinnan hafi ekki verið fín, ég er bara tilbúin að takast á við ný verkefni (held ég)

Gleðileg jól

 

add_toon_info

 


á ég að segja ykkur?

mér fannst ég búin að vera geðveikt dúleg og vel undirbúin fyrir jólin, búin að kaupa allar gjafir og byrjuð að pakka inn. Geðveikt dúleg fannst mér ... alveg þangað til í gærkvöldi.

Það vildi nefnilega þannig til að tengdapabbi kíkti hérna við rétt áður en ég fór að sofa, hann þurfti nauðsynlega að láta okkur fá einhverja pakka. Ég skildi þetta ekki alveg fyrr en hann kom.  Maðurinn er sem sagt búinn að kaupa jólagjafirnar, pakka þeim inn og byrjaður að keyra út. Mér fannst sérstaklega skemmtilegt að hann skyldi koma með jólagjafirnar til okkar frá þeim 19. desember, sérstaklega í ljósi þess að við erum boðin til þeirra í mat 22. des, 23. des og í hádeginu 24. des! Það var líka alveg hreint sérdeilis skemmtilegt að fá jólakort frá þeim í pósti í dag 


Nú geta jólin komið...

ég er nefnilega búin að taka til hátt og lágt, tæma alla skápa og hillur og raða aftur. Ég er líka búin að kaupa allar jólagjafirnar, keypti þá síðustu fyrr í dag. Svo ætla ég að nota morgundaginn í að pakka jólagjöfunum inn. Já krakkar mínir jólin eru alveg að koma þrátt fyrir að veðrið sé ekki alveg sammála mér.

Annars var skroppið í bíó í gær á Nativity story. Ég held ég verði að fara að gera hluti með einhverjum öðrum en þessum, hann er alltaf búinn að blogga á undan mér, sem sýnir hvað það er mikið að gera í þessum próflestri Whistling
En að myndinni... hún var nú bara nokkuð góð og raunveruleg á margan hátt myndi ég segja... það eru þó nokkur atriði sem mér finnst merkileg.

  1. Alls staðar talar fólk ensku núorðið Wink
  2. María vildi alls ekki giftast Jósef, enda virðist rómantísk ást alltaf vera eina rétta svarið í bíómyndunum. InLove
  3. Það vantaði englasönginn hjá hirðunum... "fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með mönnum sem hann hefur velþóknun á."
  4. Priests of all priests var þýtt sem prédikari allra prédikara, undarleg þýðing.
  5. Börn á þessum tíma fæddust augljóslega ekki með naflastreng Joyful
20061201HO_nativity_450

nýtt útlit

Jæja þá er maður kominn með nýtt útlit... geðveikt kúl en ég auglýsi ennþá eftir nýrri hausmynd, lútherska hausmynd... ég kann ekki að fiffa svoleiðis til!

Annars var helgin stórskemmtileg. Á föstudag horfði ég á Casper í sjónvarpinu... stórskemmtilegt sérstaklega í ljósi þess að við hjónakornin sátum tvö ein inni í stofu hjá bekkjarbróður mínum. Hann bauð í bekkjarpartý en við komum og fórum áður en nokkur annar lét sjá sig. Skilst samt að það hafi verið alveg geðveikt fjör þegar gestirnir létu loks sjá sig Wink Því næst var haldið í afmæli til Þóru... það voru aðeins fleiri þar og enginn að horfa á Casper. Takk fyrir góðar veitingar mamma og systir Þóru. Nánari lýsingu um kvöldið má lesa hér 

Laugardagurinn fór svo í allsherjartiltekt, eldhúsið hefur ekki verið svona hreint síðan við fluttum og ekki stofan heldur. Gærdagurinn fór líka í tiltekt og skreytingar en þá heima hjá annari konu, sem sagt í vinnunni minni. Markmið dagsins var svo að ljúka þrifunum svo ég geti byrjað að pakka inn gjöfunum. Ég lofaði nefnilega sjálfri mér að pakka ekki inn fyrr en ég væri búin að þrífa. En ég er allavega byrjuð... sem sagt búin að þvo. Það sem er eftir er því

  1. Baðherbergið
  2. Anddyrið
  3. Svefnherbergið

Smá update... ég er búin með baðherbergið og anddyrið (fyrir utan að þurrmoppa og skúra). Sem sagt komin í svefnherbergið en mér féllust hendur svo ég kveikti á tölvunni. Ég er hins vegar byrjuð, búin að þurrka úr öðrum glugganum og tæma skrifborðið... þá er bara að þurrka af því og raða á það aftur... það er að segja bara því sem á að vera þar og finna stað fyrir allt hitt draslið. Það er á svona stundum sem ég vildi að íbúðinn mín væri stærri Shocking

Annars fékk ég í skóinn í nótt... geðveikt flottar love is... nærbuxur. Verst að þær eru í barnastærð!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband